From 2005

10. Febrúar. Fundur stjórnar, farið yfir reikninga félagsins og framkvæmdaráætlun skoðuð fyrir sumar 2005.
15. Febrúar. Fór formaður Raggagarðs á fund framkvæmdastjóra Snerpu á Ísafirði. Tölvufyrirtækið Snerpa ætlar að styrkja fjölskyldugarðinn um heimasíðu garðsins að upphæð 62.000 kr til þess að gefa öllum landsmönnum tækifæri til að fylgjast með uppbyggingu Raggagarðs.
25. febrúar. Ferðamálaráð styrkir garðinn með 500.000 kr framlagi til uppbyggingar. Erindi til Pokasjóðs var hafnað í ár.
9. Apríl. Fundur stjórnar, samþykkt að kaupa 4 leiktæki í fjölskyldugarðinn frá Lappset  fyrir 574.481 kr. Þar af er afsláttur 51.862 kr.
12. Apríl. Kennarasamband Íslands styrkir garðinn um 100.000 kr til að kaupa hringekju fyrir 2-8 ára börn.
14. Apríl. Félag Álft- og Seyðfirðinga styrkir garðinn um 80.000 kr til að kaupa leiktæki. Einnig styrkir Starfsmannafélagið Kjölur á Akureyri garðinn um 71.000 kr til kaupa á leiktækjum.
15. Apríl. Vestfirskir Verktakar ætla að taka að sér að byggja salerni fyrir Raggagarð og gefa alla vinnu við það. Áætlaður kostnaður við byggingu hússins er 400.000 kr. Tækniþjónusta Vestfjarða ehf teiknaði húsið og styrkir garðinn um teiknivinnuna að upphæð 75.000 kr.
22.apríl. Fundur með Gunnari Skaptasyni forstjóra Orkunnar. Orkan bensín ætlar að styrkja Raggagarð með því að kaupa Sport-group fitness fyrir 449.208 kr, tæki sem verður í sér lundi á efra svæðinu. Orkan ætlar einnig að útvega hlið í orkulundinn og birkigróður að andvirði 150.792 kr   Sama dag var fundað með starfsmanni Húsasmiðjunnar í Reykjavík og óskað eftir styrk frá þeim. Félagið fékk 40.000 kr inneign fyrir vaski og blöndunartækjum og svo 20 % afslátt af öllum vörum sem garðurinn þarf á að halda fyrir opnunardag.
17. Maí. Vilborg Arnarsdóttir tilnefnd af Vá-Vest hópnum til foreldraverðlauna heimilis og skóla  fyrir frumkvöðlavinnu við gerð fjölskyldugarðsins Raggagarðs.
18. Maí. Komu leiktækin ósaman sett með Flytjanda/Eimskip. Flytjandi er einn af mörgum góðum styrktaraðilum Raggagarðs og hefur séð um flutninga fyrir garðinn. Að þessu sinni nam styrkurinn 182.000 kr sem nemur flutningskostnaði leiktækjanna.

20. Maí. Félag Íslenskra hljómlistarmanna styrkti garðinn um 150.000 kr til kaupa á rólu í garðinn.

21. Maí. Gröfufyrirtækið Tígur ehf vann við að hreinsa gróður og fjarlægja jarðveg úr svokölluðum Orkulundi sem er 100 ferm svæði. Jónas vann heilan dag við þetta og gaf hans fyrirtæki alla vinnu við það. Styrkur upp á 75.000 kr
28. Maí. Vinnudagur í Raggagarði frá kl; 13.00 til 16.00. Sextán manns mættu í garðinn. Samtals 48 vinnustundir.
3. Júní. Halldór Már Þórisson eiginmaður Vilborgar setti saman leiktækin fyrir steypuvinnu 32 tímar alls. Hann var einnig ásamt öðrum við að hækka upp aparóluna öðru megin í hæðstu leyfilega stöðu. 3 menn í 4 tíma samtals 12 tímar. Samtals 44 vinnustundir.
6. Júní. Héldu 3 krakkar tombólu og söfnuðust 10.600 kr og var andvirðið ætlað til kaupa á 1 bekk með borði í fjölskyldugarðinn.
8. Júní. Var steypt í 22 kassa 0,60 x 0,70 cm sem voru festingar fyrir sport-group tækið ásamt 6 öðrum kössum til að festa þrem leiktækjum. Steypustöðin á Ísafirði K.N.H styrkti Raggagarð um steypu í þessa kassa. Í þetta fór ca. 12 rúmmetrar af steypu fyrir um 48.400 kr.  Áður hafði Eldafl ehf gefið steypu fyrir klifurgrind og festingu fyrir hringekju. Samtals 25 vinnustundir.
9. Júlí. Vinnudagur frá kl 10-12 og frá kl 13-17. Hjónin í Eyrardal 5. gáfu garðinum 150 ferm af þökum sem var skorið af lóð þeirra og keyrt á kerru í fjölskyldugarðinn þar sem það var lagt. Hluti mannskapsins lagði öryggishellur undir aparóluna og aðrir hreinsuðu og klipptu tré. Aðrir rökuðu til moldinni og fl. 18 manns mættu fyrir hádegi og 21 eftir hádegi. Samtals 120 vinnustundir.
9. Júlí. Fundur stjórnar, rætt um formlega opnun fjölskyldugarðsins og hugmyndasamkeppni um nafn á garðinn. Einnig var dagskrá opnunarinnar ákveðin.
13. Júlí. Héldu nokkur börn markaðsdag og seldu kerti, kleinur og varning frá gamla kaupfélaginu sem félaginu var gefinn.
14. Júlí. Albert smiður vann við að smíða pall fyrir aparóluna og ganga frá festingum fyrir klifurgrind. Hann gaf vinnu sína 9 tíma alls.
14.  Júlí. Fór framkvæmdastjóri Raggagarðs á Sæluhelgi á Suðureyri og var með boli Raggagarðs til sölu í sölubás. Auk þess tók framkvæmdastjóri garðsins þátt í kleinukeppni Sæluhelgar og unnu Raggagarðskleinurnar í annað sinn.
17. Júlí. Vinnudagur við að tyrfa stórt svæði og hreinsa gras úr trjábeðum í grenjandi rigningu og roki. Félagar ehf lánuðu garðinum dráttavél í 5 klst og var vélin notuð í 8 tíma til að setja húsdýraáburð í trjáskurðina. Tveir settu torf á bretti fyrir hádegi og 6 manns unnu frá kl:13.00 til 18.00. Samtals 34 vinnustundir.
20. Júlí. Fyrirtækið 3X Stál styrkti garðinn um 3 útigrill sem þeir smíðuðu úr ryðfríu stáli.
25. Júní. Orkubú Vestfjarða styrkti Raggagarður um vinnu vegna uppsetningu garðljósa í garðinn ásamt rafmagnsleiðslum.  Jónbjörn Björnsson gróf fyrir staurana.
22. Júlí. Dæluskipið Perlan dældi á land sandi úr Álftafirði. Þar af átti 482 rúmmetrar að fara í Raggagarð. Björgun gaf 50% afslátt af uppdælda efninu. Í framhaldi flutti Jónbjörn sandinn inn í Orkulundinn  og á  svæði 1. Afsláttur samtals 218.748 kr.
23. Júlí. Anna Lind og Hulda báru fúavörn á bekki og borð. Samtals 4 vinnustundir.
26. Júlí. Hraðfrystihúsið Gunnvör Hnífsdal flytur 12 poka af leikvallarmöl frá Björgun hf með Framnesi ÍS til Ísafjarðahafnar endurgjaldslaust. Gámaþjónusta Vestfjarða kemur enn og aftur til hjálpar og styrkir garðinn með því að flytja pokana 12 frá Ísafirði til Súðavíkur tvær ferðir alls.
28. Júlí. Gróðursetning runnagróðurs, þrír menn í 3 tíma. Samtals 9 vinnustundir.
30. Júlí. Vinnudagur frá kl:13.00 til 18.00. Unnið við að tyrfa rest og gróðursetja tré. Bera fúavörn á bekkina. Setja hlið og steypa í Orkuhliðið. Moka til sandi, setja leikvallarmöl við leiktæki og fl. Tuttugu og þrír voru við vinnu megnið af tímanum samtals 115 vinnustundir.
1. Ágúst. Vinnudagur, unnið við að klára að tyrfa, slá garðinn og annan frágang frá kl:13.00 til 18.00. 18. manns samtals 90 vinnustundir. 5 voru frá kl:20.00 til 23.00 eða 15 vinnustundir  Samtals  105 vinnustundir.
3. Ágúst. Enn unnið við girðingavinnu, gróðursetningu trjáa og annan frágang. Frá kl:20.00 til 23.00 átta manns, samtals 24 vinnustundir.
4-5. Agúst. Lokafrágangur. Uppsetning skilta og fl vinnustundir 16 tímar. 4 ágúst fékk félagið starfsleyfi frá heilbrigðisfulltrúa Vestfjarða.
6. Ágúst. Formleg opnun 1. áfanga Fjölskyldugarðs Vestfjarða. 400-500 manns mættu á svæðið. Garðurinn fékk góðar gjafir á tilefni opnunarinnar. Fánaborg, tvær flöskutunnur frá Gámaþjónustu Vestfjarða, gestabók frá Súðavíkurhrepp og púlt undir bókina ásamt 2 bekkjum og borðum frá félagi Sumarbúa. Einnig 50.000 kr frá Sparisjóði Vestfirðinga. Hljómsveitin Appaló spilaði frítt við opnunina,  SS gaf pylsur og meðlæti fyrir 600 manns og sælgæti.  Egils gaf gos fyrir 600 manns.  Einnig gaf Nói Síríus flugkarmellur sem Örn Ingólfs flugmaður flaug með yfir garðinn endurgjaldslaust. Engar tillögur komu um nafn á fjölskyldugarðinn nema nafnið Raggagarður og fékk garðurinn því formlega það nafn á opnuninni. Séra Skúli Ólafsson blessaði garðinn.  Sjá nánar á heimasíðu.
Í ágúst.  Raggagarður hefur fengið Dvergasteinshúsin svokölluðu að gjöf frá afkomendum Auðuns Árnasonar frá Dvergasteini í Álftarfirði.  Hann lést árið 1991. Þetta er mjög stór og höfðingleg gjöf til Raggagarðs.  Auðunn smíðaði húsin á árunum frá 1975 til 1990.  Húsin eru 9 að tölu og eru eftirmyndir af húsum sem voru áður í Súðavík og eru sum húsanna horfin úr Súðavík.  Húsin eru vönduð smíði þar sem Auðunn hefur lagt metnað sinn í að gera húsin sem líkust því sem þau voru á þeim tíma með stigum, inniveggjum og líka húsbúnaði sem þá tíðkaðist.  Húsin sem um ræðir eru: Mýrarhúsið – Verðbúð í Bolungarvík um 1900 – Súðavíkurkirkja – Gamli barnaskólinn – Félagsheimilið – Tröð 1.  Rauðahúsið á Langeyri –Miðhús og Draumahús Auðuns en það hús var aldrei byggt.
Raggagarður hefur óskað eftir samvinnu Súðavíkurhrepps um viðgerð á húsunum og síðan varðveislu og uppsetningu þeirra í fjölskyldugarði vestfjarða.  Mikil menningarverðmæti er í húsunum og því brýnt að standa vel að bæði sýningu þeirra og varðveislu í framtíðinni. Einnig er hugsanlegt að bæta við fleiri horfnum húsum í Súðavík í safnið  síðar.
7. September. 9 pokar af perlumöl voru fluttir frá Björgun hf í Reykjavík niður á Faxabryggju. Þessa poka gaf Björgun ehf.  Vörubílamiðstöðin Þróttur í Reykjavík sá um að koma pokunum niður á höfn og gaf þá vinnu. H.G í Hnífsdal sá um flutninginn á perlumölinni vestur á firði endurgjaldslaust. Jónbjörn Björnsson flutti svo malarpokana frá Ísafirði til Súðavíkur garðinum að kostnaðarlausu.
10. September. Landflutningar fluttu borð og bekki frá Reykjavík hingað vestur og styrkti garpinn með því fyrir 10.030 kr.
27. Október. Vilborg átti fund með Þórmundi vegna Menningarsjóðs Landsbankans vegna beiðni um styrk til að fjármagna kaup á 13 mini-golf brautum að upphæð 1.000.000 kr. Því var svo hafnað.
24. Nóvember. Sparisjóður Vestfirðinga styrkti Raggagarð um 50.000 kr og Súðavíkurhreppur um 200.000 kr.  Þar af er 50.000 kr til kaupa á málningu á Dvergasteinshúsin.
Nóvember. Lokaði Raggagarður  fyrir veturinn og opnar ekki aftur fyrr en 1. júní 2006. Vetrarstarf framkvæmdarstjóra er að finna aðila sem vilja koma að uppbyggingu fjölskyldugarðs Vestfjarða með styrkjum eða vinnuframlagi.
20. Desember. Loftmyndir ehf styrktu garðinn um loftmyndir og hæðapunkta fyrir fyrirhuguðu útivistasvæði og bílastæði.  Styrkurinn var að andvirði 75.000 kr.
29. Desember. Fundur stjórnar Raggagarðs var samþykkt að leita eftir styrkjum til Bugur group, FL group,  KG banka og fl aðila fyrir kaupum á leiktækjum í garðinn.

Aðrar upplýsingar:
Félagið Raggagarður hefur selt stuttermaboli til fjáröflunar fyrir garðinn.  Árið 2005 voru seldir bolir fyrir 226.000 kr.
Einnig hafa einstaklingar gefið garðinum gjafir til að selja sem fjáröflun.  Kjartan Sigurjónsson organisti gaf garðinum 25 geisladiska með kirkjutónlist til að selja að andvirði 37.500 kr.  Einnig gáfu tvær konur frá Súðavík 40 kerti sem þær hafa skreytt að andvirði 35.000 kr. Þessar upphæðir renna óskipt til Raggagarðs.
Börnin í Súðavík hafa haldið tombólu og fyrir þann pening hefur verið keypt 2 borð með bekkjum.
Einnig má nefna það að fyrirtæki hafa verið dugleg að gefa vinnuvélavinnu eða aðstoða á þann hátt sem þau geta, t,d, gaf Steypustöðin steypuna fyrir undirstöður leiktækjanna sem voru sett niður í sumar.
Framkvæmdastjóri Raggagarðs hóf fjáröflun fyrir Raggagarð með kleinubakstri heima og hefur selt í Súðavík og á stærsta skip vestfirðinga Júlíus Geirmundsson Ís.  Áhöfnin  hefur keypt nær helming af þeim kleinum sem bakaðar hefur verið.  Árið 2004 var ágóðinn af  kleinubakstri  203.900 kr og árið 2005 var ágóðinn 236.500 kr.  Framkvæmdastjóri Raggagarðs er nú búin að baka kleinur úr rúmu tonni af hveiti.
Einnig hefur Raggagarði borist frjáls framlög frá einstaklingum.

Framkvæmt var fyrir alls 5.437.904 kr
Þar af var  gefnin vinna afsláttur og styrkir 3.435.358
Samtals unnar vinnustundir í sjálfboðavinnu voru alls 553
Vinna Framkvæmdastjóra er aðeins skráð á vinnudögum garðsins en þar fyrir utan er vinna við fjáröflun fyrir garðinn, kleinubakstur og fleira ekki skráð.

 

en_USEnglish